Af hverju er sigur Conchitu mikilvægur?

Um síðustu helgi tjáði ég internetinu að ég hefði grátið af gleði yfir úrslitum Júróvísjón. Þótt það sé reyndar ekki alveg satt (þetta með grátinn var ýkjur, komnar til af spenningi og örlitlu rauðvíni) held ég að rétt sé að útskýra örlítið af hverju ég gladdist svo mjög yfir sigri Conchitu Wurst og fönixlagsins. Það virðast nefnilega ekki allir átta sig á því af hverju hann var mikilvægur.

Image

Í fyrsta lagi var lagið gott að mínu mati og söngurinn frábær, framkoman óaðfinnanleg og atriðið í heild bar af. Þetta er mín persónulega skoðun og henni má vera ósammála. Smekkur fólks er misjafn og þar með skoðanir þess á tónlist. Það er mjög eðlilegt. Þetta er þó alls ekki ástæðan fyrir því að ég gladdist svo mjög yfir úrslitunum.

Ástæða þess að sigur Conchitu Wurst var merkilegur er ekki bundin persónulegum smekk, hvorki á tónlist, framkomu né útliti söngvarans. Það skiptir í raun afar litlu máli hvað fólki finnst um lagið eða flutninginn – úrslitin eru ljós. Evrópa hefur kosið, eins og þar stendur. Nei, ástæðan er pólitísk. Ekki þó í þeim skilningi að Austurríki hafi átt skilið að vinna frekar en önnur lönd, heldur skiptir sigur Conchitu máli í kynja- og hinsegin-pólitísku samhengi.

Með því á ég við að Conchita, öðru nafni Tom Neuwirth – maðurinn í kjólnum, konan með skeggið, transmanneskjan, dragdrottningin, eða hvaða orð sem við kjósum að nota um hana – vann eina stærstu tónlistarkeppni sem haldin er í heiminum þótt hún þverbryti flestar þær „reglur“ sem vestræn samfélög hafa sett hvað varðar kyngervi og kynhlutverk. Fólk eins og hún, sama hvers kyns það er eða hvaða kynfæri það hefur, verður fyrir fordómum, ofbeldi, barsmíðum og fyrirlitningu úti um allan heim bara fyrir að neita að, eða hreinlega geta ekki, hegðað sér eins og það „á“ að gera og fallið að hefðbundnum hugmyndum um kvenleika og karlmennsku. Þess vegna er sigurinn mikilvægur. Conchita hefur sýnt að konur með skegg eða karlar í kjólum geta staðið upp og sagt „hér er ég“, sungið og fengið milljónir atkvæða frá fólki úti um alla Evrópu og víðar, líka í löndum þar sem lög banna samkynhneigð og takmarka tjáningarfrelsi fólks.

Image

Af hverju snerti þetta samt við mér? Ég er kona, ég er ekki trans og hef ekki upplifað nein sérstök leiðindi þótt ég sé lesbía. Af hverju skiptir þetta mig máli?

Ja, í fyrsta lagi er ég með örlítið skegg. Það er ekki gróskumikið og mér hefur verið tjáð að það sjáist lítið sem ekkert en það er af því að ég vanda mig mjög við að plokka það burt, hár fyrir hár. Til að halda því í skefjum þarf ég að bregða plokkaranum á loft um það bil annan hvern dag. Þessi hár vaxa í andlitinu á mér af því að ég er með heilkenni sem heitir PCOS (fjölblöðrueggjastokkaheilkenni, eins og það nefnist víst á dásamlega ljúfri læknaíslensku). PCOS hrjáir um það bil 10% allra kvenna í heiminum en hefur lengi vel verið þaggað og haldið sem leyndarmáli – kannski einmitt af því að það ýtir undir „karlmannlega“ eiginleika kvenna eins og hárvöxt. Margar konur þjást alla sína ævi út af skömm, fordómum og öðru sem fylgir PCOS (því fylgir líka oft offita, ófrjósemi, bólugrafin húð og fleira). Ef samfélag okkar samþykkti almennt að konur mættu vera með hár annars staðar en á höfðinu, ættu margar PCOS konur auðveldara líf. Þannig er það nú bara.

Image

Í öðru lagi er ég svo ótrúlega ánægð með Conchitu af því að ég á býsna marga vini og kunningja sem eru trans, eða falla á einhvern hátt utan þess sem flestir kjósa að kalla „venjulegar“ konur og „venjulega“ karla, og hafa fengið að finna fyrir fordómum samfélagsins. Ég þykist vita að sigur Conchitu sé mikilvægur fyrir þau og þess vegna er hann líka mikilvægur fyrir mig. Eða eins og Ugla, mín ágæta vinkona, orðaði það svo vel á Facebook í vikunni:

„Sem manneskja sem hefur upplifað mikið einelti eins og Conchita fyrir að passa ekki inn í kassa samfélagsins er sigur hennar ógleymanlegt augnablik í mínu lífi. Sjaldan hef ég verið jafn full stolti og hamingju en þegar að það kom í ljós að hún hafi rústað þessari keppni.

Útlit hennar ögrar svo sterku kerfi í okkar samfélagi; kerfi sem er svo kúgandi og þvingandi að það hindrar og kemur í veg fyrir að fólk geti fengið að vera það sjálft. Það takmarkar hamingju fólks og jaðarsetur þá sem passa ekki inn í það. Þess vegna er Conchita og boðskapur hennar gríðarlega mikilvægur og fallegur. Hún stendur fyrir fjölbreytileika, mannréttindi og frelsi til að fá að vera maður sjálfur. Við erum öll sameinuð í baráttu fyrir mannréttindum og við erum óstöðvandi.

Ef það þykir ekki merkilegt, þá veit ég ekki hvað.“

Advertisements

Júróvísjónhugvekja

Ein skýrasta minning mín um þennan dag, 10. maí, er frá einhverju árinu þegar daginn bar líka upp á Júróvísjónlaugardag. Í þá daga var Júróvísjón enn stærri viðburður í mínum huga en í dag, enda áttum við fjölskyldan ekki myndbandstæki og náðum bara Ríkissjónvarpinu, svo tilbreytingin var mikil. 10. maí var líka alltaf merkilegur dagur því mamma átti afmæli, svo þessi tiltekni 10. maí var sérstaklega stór. Þetta kvöld húktum við amma engu að síður aleinar inni yfir Júróvísjón á meðan sjálft afmælisbarnið, systir hennar og faðir stóðu í stórræðum úti í fjárhúsum. Það er nefnilega alltaf sauðburður 10. maí, eins og þið vitið.

Þetta kvöld náðist að bjarga lífi ær og lamba með miklum tilþrifum, sem ég man ennþá þótt ég hafi ekki tekið þátt í þeim sjálf. (Bjó ég kannski þessa sögu til?) Vandamálið var sem sagt að það var snúið upp á legið í vesalings ánni svo lömbin komust ekki út. Þetta var á endanum leyst á þann veg að móðir mín hin smáhenta sá um að halda leghálsinum í skorðum (innan frá, vitanlega) á meðan hin tvö veltu rollunni einn hring. Voilá, og lömbin fæddust. Þetta tók nú samt allt kvöldið og ég var hundfúl yfir því að geta ekki deilt Júróvísjóngleðinni með fjölskyldunni.

Svona á nú Júróvísjón stóran sess í huga mér. Góða skemmtun, gott fólk, og munið að hugsa vel um litlu lömbin.

Skjóttu – á!

Samtal gærkvöldsins, sem leiðir hugann að því hvort fimm ára aldursmunur geti stundum verið í raun og veru þrjátíu ár.

 

Helga: Viltu súkkulaði?

Ásta: Já takk.

H (réttir plötu í átt til Á): Brjóttu.

Á: Á!

H:?

Á: Æi þú veist, brjóttu, eins og skjóttu…

H: Aha.

Á: Ég veit, lélegur brandari.

(Þögn)

Á: Þú fattaðir samt hvað ég átti við með skjóttu – á! er það ekki?

H: Nei.

Á: (stynur)

H: Er það eitthvað svona vandræðalegt sem þú þekkir af því að það er svo gamalt?

Á: (syngur viðlagið)

H: Jaá, ég kann þetta í strumpaútgáfunni!

Rökræður flugfarþega við sjálfan sig

Kaffi, kaffi, kaffi, mikið er nú gott að fá sér kaffi. Nú og hér við hliðið er fullt af lausum sætum, mjög gott. Best að spila smá Candy Crush á meðan ég bíð. Mikið er ég fegin að vera með gluggasæti, þá get ég hallað mér án þess að slefa á ókunnuga.

Gangið um borð, segir konan. Eins gott að handfarangurinn sé ekki of þungur… æi þau tékka aldrei á því hvort eð er.

Gluggasætið er fínt og engin pirruð smábörn eða fullir karlmenn nálægt mér, mjög gott.

Fokk. FOKK! Er ég að fara í flugferð enn og aftur? Hvernig dettur fólki í hug að gera þetta? Setjast upp í einhvern hólk og ætlast til að hann geti ferjað mann yfir heimsins höf í margra kílómetra hæð? Ég er hætt við.

Nei, ég get það víst ekki. Ó jæja, þá byrjar þetta enn og aftur. Hvernig var þetta aftur, þetta sem ég lærði í hugrænni athyglismeðferð þarna um árið, þegar ég fékk kvíðakastið?

Stoppa hugsanirnar áður en þær framkalla ótta. Breyta þeim í jákvæðar hugsanir. Ókei.

Ég er ekki að fara að deyja af því að það er öruggara að fljúga en keyra í bíl. Hlutfallslega séð. Ég þekki engan sem hefur lent í flugslysi í farþegaflugvél og líkurnar eru hverfandi.

En ég er búin að fljúga svo oft á undanförnum árum, það hlýtur að auka líkurnar. Ég meina, þetta er örugglega í fertugasta skiptið sem ég sest upp í flugvél á síðustu þremur eða fjórum árum, nú hlýtur eitthvað að fara að koma fyrir.

Nei, nei, það þarf ekkert að vera.

Jú!

Nei nei.

Jæja, þá er komið að þessu, hreyflarnir farnir á fullt og við þjótum af stað. Hvað ef það fljúga fuglar inn í hreyfilinn? Það gerðist þarna í New York þegar gaurinn lenti vélinni á ánni. Það er ekkert pláss á Liffey til að lenda flugvél.

Það gerist ekki neitt.

En hvað ef vélin bilar? Ég meina, vélar í bílum bila alltaf öðru hverju, líka þegar þeir eru úti á miðjum vegi á fullri ferð.

Það er fullt af þrautþjálfuðum flugvirkjum sem passa að það gerist ekki.

Hvernig veist þú það? Kannski mættu þeir þunnir í vinnuna. Eða eru bara ekki nógu vandvirkir. Eða fá ekki nógu hátt kaup og er bara skítsama.

Þetta er vandað flugfélag með gott orðspor, þeir hljóta að passa upp á þetta.

Jaaaá. Ég er samt ekki alveg viss.

Ókei, nú erum við komin á loft og sætisbeltaljósin eru enn kveikt. Ég þarf að slökkva á hugsununum með því að spila Candy Crush. NEI! Ég kláraði lífin áðan! Af hverju er ekki til sérstök flugvélaútgáfa af þessum leik með endalausum lífum? Ókei, ókei. Hvað þá? Lesa? Nei, það virkar aldrei. Sudoku. Já, sudoku virkar oft. Hvenær má ég kveikja á helvítis símanum?

Jæja, þá má ég loksins kveikja á símanum. Tónlist á fullt svo ég heyri ekki í hreyflunum þegar þeir bila – ég meina, svo ég truflist ekki af umhverfishljóðum – og spila sudoku.

Eru nokkrir fuglar þarna úti?

Nei, bara ský. Fullt af skýjum. Hvað ef það kemur önnur flugvél og klessir á okkur? Ég meina, flugmennirnir sjá ekki neitt í þessu skyggni.

Til þess eru flugumferðarstjórar, Ásta mín. Þeir passa að svoleiðis gerist ekki.

En hvað ef tækin bila? Eða radarinn í vélinni?

Það… bara gerist ekkert.

Ég trúi þér ekki.

Fokk.

Ókei, stöðva hugsanir. Sudoku. Og rauðvín. Fara flugþjónarnir ekki að koma með vínið?

(Nokkru síðar, eftir 1–2 rauðvínsglös og mikla hugræna atferlismeðferð)

Jæja, þetta er nú ekkert svo slæmt. Af hverju var ég aftur hrædd?

(Undir lok flugferðar)

Jess, við erum að fara að lenda! Þetta er að verða búið. En lendingin er samt hættulegasti hluti ferðarinnar, öll flugslysin verða þá.

Dööö!

Eh, já, þú meinar…

En samt, stundum gerist eitthvað í lendingu. Kannski er of hvasst, eða of mikil þoka. Af hverju sé ég ekki til jarðar?

Af því að það er lágskýjað. Það er mjög eðlilegt.

En hvað ef flugmaðurinn sér ekki neitt og klessir á aðra flugvél eða fjall eða eitthvað?

Flugumferðarstjórarnir, manstu?

Veistu, ég treysti tækjunum þeirra bara ekki neitt.

Það er fullt af eftirliti með svona.

Það er kreppa í heiminum engir peningar til í eftirlit, sjáðu bara bankana á Íslandi.

Það kæmi mjög illa út fyrir flugfélög ef eftirlitið væri ekki í lagi og þau vilja ekkert hætta á það.

Er það ekki nei? (langt andvarp)

JÁÁÁ ég sé land! Og svo, anda inn og anda út, þetta er alveg að verða búið.

Anda, muna að anda, þannig losar maður um adrenalínið.

Og svo nær, koma svo… já og svo hjólin niður…

JÁ! Það tókst! Jibbí! (langt feginsandvarp)

(Á leiðinni út úr vélinni)

Af hverju í ósköpunum er ég svona flughrædd? Þetta er aldrei neitt mál…

 

 

 

Minningar í myndum

fjolskyldan

Tvisvar með tíu ára millibili hefur 16. janúar hoggið djúp skörð í fjölskylduna á myndinni hér fyrir ofan. Nú eru enn liðin tíu ár og ef ég væri hjátrúarfull myndi ég líklega vera kvíðin fyrir því sem dagurinn ber í skauti sér. Svo er þó ekki. Í dag ætla ég að ylja mér við minningar (þótt ég hafi reyndar mjög mikið að gera og of lítinn tíma til að hugsa um annað en verkefni) og minningar eru einna best geymdar (og skapaðar) í myndum.

Ég yrði himinlifandi ef einhver sem þekkir til býr svo vel og er svo gjafmild/ur að geta sent mér fleiri myndir í tölvupósti (astakben hjá gmail.com). Ég elska myndir.

Þórgunnur Eysteinsdóttir, f. 1961, d. 16.1.1994

Eysteinn Sigurðsson, f. 1931, d. 16.1.2004

Afi og amma líkklega á Laugum
Afi og amma í tilhugalífinu á Laugum, ung og sæt.
afi og sasú
Mér þykir sérstaklega vænt um þessa mynd. Hún er tekin á aðfangadagskvöld; afi búinn að fá sér blund eftir átið og kippir sér ekkert upp við það þótt páfagaukurinn Sasú tylli sér á ístruna og snyrti sig. Eftir á að hyggja er alveg magnað að sauðfjárbóndinn hann afi minn skuli hafa tekið páfagaukinn í sátt – og ekki bara það heldur hafði hann gaman af honum.
Mædgur i rettum
Þessa mynd átti Æsa og gróf upp yfir kaffibolla í Hafnarfirðinum í fyrra. Mæðgur í réttum haustið 1983.
fjsk Arnarvatni
Ein af örfáum fjölskyldumyndum sem til eru – tekin á aðfangadagskvöld einhvern tímann í kringum 2000.
sauðburður91
Þessi mynd er mjög dæmigerð fyrir minningar úr æsku minni fyrir 10 ára aldur. Sauðburður og lambalykt… og ekki verra að hafa mömmu með.
MammaogÁsta
Uppáhaldsmæðgnamyndin, tekin líklega um 1987.
ásta og afi
Þessa mynd tók einhver frændi okkar (því miður man ég ekki hver) og sendi okkur í ramma eftir að afi dó. Ég elska svona myndir þar sem enginn veit að verið er að festa hann á filmu.

Áramót

Í gærkvöldi streymdu persónuleg ársuppgjör inn á Facebook svo við lá að mér þætti nóg um. Og þó ekki, því þegar upp er staðið er bæði gott og gaman að sjá hvernig líf fjölskyldu, vina og kunningja hefur verið á árinu og hvernig augum fólk lítur komandi ár. Ýmsir sem yfirleitt eru ekki væmnir á almannafæri leyfa sér slíkt á jólum og áramótum og það er vel. Ég ætla að gera slíkt hið sama hér og nú. Þau ykkar sem nennið ekki að lesa getið skrollað beint niður að myndunum sem birtast í lok færslunnar.

Gott ár

Árið 2013 var gott ár. Ég er hamingjusöm, ástfangin og heilbrigð á góðum stað í lífinu og fólkið í kringum mig hefur verið heilbrigt og hraust. Ég ferðaðist meira en nokkru sinni fyrr, bæði í frístundum og á ráðstefnur tengdar náminu. Ég hef lært gríðarlega margt á undanförnum árum, sérstaklega kannski um allt það sem ég á ólært og að það sem ég áður taldi gott og gilt er stundum bölvað rugl og vitleysa. Batnandi Ástu er best að lifa – það sannast betur með hverju árinu sem líður.

Enn og aftur sannaðist hvað ég á yndislega vini og ég verð sérstaklega þakklát fyrir þá þegar líður að áramótum og ársuppgjörum, líklega af því að þá rifjast upp góðar stundir sem við höfum átt saman. Suma sé ég of sjaldan, til dæmis Ingu sem býr í Óman, en ég held að 2013 sé fyrsta árið á þessari öld sem við hittumst aldrei.

Margar vinkvenna minna eru löngu farnar að unga út börnum og halda því áfram. Þau eru hvert öðru gjörvulegra, enda er upplagið gott, en verst þykir mér þegar þau búa svo langt í burtu að ég fæ ekki að sjá þau nema á myndum. Úr því verður vonandi að einhverju leyti bætt á nýju ári. Ég varð líka föðursystir rétt fyrir jól og hef fögur fyrirheit um að standa mig í því hlutverki. Það er stórgott fyrirkomulag að láta fólkið í kringum sig sjá um barneignir og ég reikna með að halda því áfram á næstu árum.

Ég er þakklát fyrir að eiga athvarf á Arnarvatni og þangað get ég horfið og falið mig undir sæng ef ritgerðin bugar mig – nú eða ef ég klára hana og/eða sit uppi peningalaus í einhvern tíma. Ég var heima öðru hverju í sumar og fram í byrjun október og það virkilega gefandi tími, sér í lagi september. Haustið í Mývatnssveit er einfaldlega stórkostlegt. Svo er ekki verra að tíkin Týra er glaðasti hundur í heimi og skilyrðislausari ástarhug í minn garð hef ég aldrei upplifað. Ef Helga gefst upp á mér á ég allavega hundinn og Bellu!

Það er varla hægt að biðja um betra líf en 2013 hefur boðið mér upp á, held ég. Jú, það væri reyndar ágætt að fara að koma doktorsritgerðinni frá. Árið 2014 verður ár ritgerðarinnar. Þetta er ekki áramótaheit – ég á engra kosta völ.

Breytingar framundan

Við Helga bjuggum í Dublin megnið úr árinu; komum ekki heim fyrr en í lok júní og fórum aftur út síðasta haust. Dublin er góður staður að búa á og við verðum þar að öllum líkindum áfram – allavega með annan fótinn (ég). Heimilið okkar í nýju íbúðinni er dásamlegt – svo dásamlegt að það skelfir mig dálítið að hugsa til þess að árið 2014 verður kannski árið þegar fjarbúðin, sem við höfum vitað af lengi, hefst. Ég gæti þurft að yfirgefa íbúðina og Helgu, allavega í einhvern tíma, því ritgerðin kallar á að ég dvelji eitthvað í Reykjavík og svo klárast styrkurinn í haust. Hvað þá tekur við veit ég ekki alveg en Helga stefnir á að finna sér vinnu í Dublin eftir útskrift í sumar. Óvissan er ekki alslæm því mér líkar illa við að plana of langt fram í tímann. Stóra verkefnið verður fjarbúðin sem vofir yfir en við Helga erum ákveðnar í að takast á við það saman og gera það vel.

Topp tíu?

Hvað stendur upp úr á árinu? Ég veit það ekki.

Starfið með Hinsegin dögum í Reykjavík kemst ofarlega á listann. Þar vinnur einfaldlega toppfólk í sjálfboðavinnu í margar vikur og mánuði á ári hverju og meira gefandi vinnu eða betra samstarfsfólk er varla hægt að hugsa sér. Fjórða árið í röð tókum við Helga þátt í að stýra göngunni og í þetta skiptið tókst það óvenju vel, svo líklega verðum við að gera það einu sinni enn…

Málþingið um Jakobínu Sigurðardóttur sem ég tók þátt í að skipuleggja í Mývatnssveit í byrjun október, sem og starf leshópsins í september, er reynsla sem ég mun aldrei gleyma. Ég er svo stolt af þessu ferli öllu frá A til Ö og fólkinu sem tók þátt í því að ég gæti sest í helgan stein í dag og aldrei grobbað af neinu öðru. Menningarlífið í Mývatnssveit er svo lifandi og kvikt þessi misserin að það þarf ekki nema örlítinn neista og þá er orðið bál. Möguleikarnir eru óþrjótandi og ég hlakka til að vinna meira í heimabyggð á næstu árum.

Sumarfríið okkar Helgu í Danmörku og Svíþjóð í sumar var magnað, sem og gangan um Hellismannaleið sem við Bella fórum í með gönguhópnum Skunda í júlí. Já, og öll hin ferðalögin mín líka. Nóvember, gestamánuðurinn mikli í Dublin, var frábær og nýi svefnsófinn sannaði gildi sitt.

Ég held samt svei mér þá að toppurinn á árinu sé nýja sturtan á Arnarvatni sem við frænkur splæstum í í haust. Eftir að hafa þvegið sér í mörg ár í sturtuklefa sem skammtar vatn í desilítravís, heitt og kalt til skiptis, og ruggar til og frá með hverri hreyfingu sturtufarans, langar mig nú mest til að fara í sturtu tvisvar á dag og gráta svolítið af gleði í hvert skipti. Jú, og svo gleður mig mikið að geta farið í sturtu (og á klósettið) inni í íbúðinni okkar Helgu í Dublin. Það gátum við ekki áður. Þar þarf heldur ekki lengur að klæðast þreföldum ullarklæðnaði innan dyra, sem gleður mig mjög. Sem sagt: heitt vatn og hiti er það sem hefur vakið mesta lukku hjá mér á árinu. Svona verður kona þakklát fyrir grundvallarlífsgæði þegar hún er komin á fertugsaldurinn.

Angurværð og fyrirheit (Varúð! Hér er talað um dauðann)

Árið 2014 verð ég þrjátíu og tveggja ára. Þá verða líka tuttugu ár síðan mamma kvaddi þennan heim. Hún var þrjátíu og tveggja ára. Þessi staðreynd hefur orðið æ áleitnari í huga mínum síðustu ár og hún hefur vakið mig til umhugsunar um ýmislegt. Fyrst og fremst er ég slegin yfir því hvað hún var ung og hvað hún átti eftir að gera margt í lífinu. Fyrir tuttugu árum síðan fannst mér hún kannski ekki gömul en þó órafjarri mér í aldri. Hún var fullorðin en ég var barn. Núna er ég orðin fullorðin og ég er alls ekki til í að hætta að lifa, hvað þá að horfa á eftir vinum mínum yfir móðuna miklu. Ég er ekki lífhrædd (allavega ekki meira en venjulega, þ.e. ekki nema ég sé í flugvél eða keyrandi í hálku eða í fallturni í Tívolí) en ég er hugsi.

Í fyrsta lagi hugsi yfir krabbameinum og ábyrgð fólks á eigin heilsu. Sú ábyrgð er vitanlega ekki algjör. Við vitum aldrei hvað lífið ber í skauti sér og heilsufrík fá líka krabbamein. Engu að síður eigum við bara einn líkama og það er óskynsamlegt að fara illa með hann. Eitt af því sem ég ætla að gera á árinu 2014 er að halda áfram að bæta mig í því að fara vel með líkamann, sem og að sinna æskilegu eftirliti með honum, ef svo má segja. Fyrir áramót dreif ég mig (allt of seint) í leghálsskoðun (og rak Helgu með). Ég tók líka skref í áttina að því að komast að því hvort krabbameinið sem mamma var með var arfgengt og í þessum skrifuðu orðum bíð ég eftir niðurstöðum. Ef þær verða jákvæðar tekst ég á við það en ég kvíði því ekki. Í dag skráði ég mig svo sem velunnara Krabbameinsfélags Íslands og styrki það nú með mánaðarlegum greiðslum.

Í öðru lagi er ég hugsi yfir minningum, eða réttara sagt, skorti á þeim. Hvernig kona var Þórgunnur Eysteinsdóttir? Myndum við verða vinkonur ef við hittumst á förnum vegi í dag? Myndum við hlæja að sömu hlutunum, hafa svipaðar skoðanir, þræta, þegja, hjálpast að, hringjast á? Ég veit það ekki, því allar mínar minningar um hana – sem reyndar eru sorglega fáar og frekar tilfinning en minningar – eru litaðar af þeirri staðreynd að ég var barn og hún var mamma mín og börn hugsa ekki um mæður sínar sem persónur heldur mömmur. Á árinu 2014 ætla ég að reyna að kynnast Þórgunni betur. Til þess þarf ég hjálp góðs fólks og eftir henni mun ég leita á næstu mánuðum.

Að lokum

Ef þið hafið enst til að lesa í gengum alla þessa munnræpu óska ég ykkur til hamingju með árangurinn. Þau ykkar sem rennduð ykkur beint niður að myndunum án þess að lesa … æi ég skil ykkur vel.

Gleðilegt nýtt ár öll sömul og reynið að njóta lífsins og gera eitthvað sem ykkur finnst skemmtilegt og lætur ykkur líða vel. Það er svo nauðsynlegt.

 

Fögur er hlíðin
Brynja og Hildigunnur komu í heimsókn til Dublin um mánaðamótin nóvember-desember – og við fórum á langþráða Boyzone tónleika
Elsku Herðubreið. Ég fékk að vera leiðsögumaður í tveimur ferðum í Öskju í haust
Snemmbúin smalamennska í Arnarvatnslandi í lok ágúst
Glaðbeittir göngustjórar snemma morguns laugardaginn 10. ágúst
Bella og Týra uppi á Belgjarfjalli
Yngsta au-pair barnið mitt, Ane, í heimsókn í Mývatnssveit í júlí
Hellismannaleið í júlí
Á Íslandsrúnti með Helgu
Helga grillar í Skaftafelli
Í Stadil á vesturströnd Jótlands á Jónsmessunótt með Helgu og dönsku fjölskyldunni „minni“
Með Auði í París í júní
Með Írlandsvinkonunum Ösp og Valdísi á Giant’s Causeway á Norður-Írlandi í maí
Jólasnjór á Arnarvatni 4
Jólasnjór á Arnarvatni 4

Hugleiðingar um bók, hlátur og grátur

„Að hverju varstu eiginlega að hlæja þarna áðan?“ spurði Helga mig í síðustu viku þegar ég hafði verið lokuð inni í herbergi í tvo og hálfan tíma og tímdi varla að taka mér tíma til að borða kvöldmat. Hún hafði heyrt út undan sér fliss og jafnvel skellihlátur en svo komu þagnir inni á milli – ef hún hefði hlustað vel hefði hún kannski heyrt snökt líka. Ástæðan fyrir þessari hegðun minni var sú að ég var að lesa bók, nánar tiltekið ævisögu sem ég átti að skrifa ritdóm um. Í þetta skiptið var bókin óvenjulega nákomin mér, ef svo má segja, því ég þekki höfundinn og sögusviðið er að miklu leyti mín heimasveit. Þetta vissi ég fyrir og gerði mér grein fyrir því að ég þyrfti að reyna að kljúfa mig í tvennt við lesturinn (eða allavega skrifin): í fjarlægan ritdómara og persónulegan lesanda. Báðar Ásturnar hlógu við lesturinn en aðeins önnur þeirra grét.

Ritdómurinn birtist á heimasíðu menningarritsins Spássíunnar í morgun. Hér ætla ég að leyfa eilítið persónulegri og mjög svo óbókmenntafræðilegum hugleiðingum að flæða. Við lestur þessarar bókar greip mig nefnilega svo mikið skrifæði að ég gat ekki hætt.

allaminastelpuspilatid

Alla mína stelpuspilatíð

Bókin er Alla mína stelpuspilatíð eftir Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur, eða Siggu Stínu eins og mér er tamt að kalla hana, þótt ég hafi raunar þekkt hana í stuttan tíma og frekar lítið þar til fyrir skömmu síðan.

Hún er fædd og uppalin í Garði í Mývatnssveit og föðursystir æskuvinkonu minnar Hildigunnar en var flutt úr sveitinni áður en ég fæddist. Við kynntumst þegar ég var að vinna að MA-ritgerð um skáldverk móður hennar, Jakobínu Sigurðardóttur, fyrir nokkrum árum síðan. Ég var skíthrædd um að þessi ókunnuga kona myndi taka mér illa (gott ef ég var ekki smeyk við „skapofsa og hvatvísi Garsa“ sem henni verður tíðrætt um í bókinni) og skamma mig fyrir að vera að skipta mér af því sem mér kæmi ekki við. Sú varð aldeilis ekki raunin því Sigga Stína var óskaplega almennileg við mig, sendi mér bréf og myndir, sagði mér sögur og bauð mér í kaffi þegar ég átti leið um Sauðárkrók. Við kynntumst svo enn betur í sumar og haust þegar við unnum saman að því að skipuleggja málþing í Mývatnssveit um Jakobínu og verk hennar. Ef Garsar eru skapvondir hefur það allavega ekki bitnað á mér.

Reiða stelpan

Sigga Stína er flottur penni og bráðfyndin, eins og ég vissi reyndar fyrir (enda er hún skuggalega lík bróðurdóttur sinni og vinkonu minni á margan hátt). Bókin er fyndin, sérstaklega fyrri hluti hennar, þótt hún fjalli öðrum þræði um erfiða tíma. Kaflinn sem við skellihlógum báðar yfir, Ásta ritdómari og Ásta lesandi, fjallar um fyrstu æviár höfundarins og sterk karaktereinkenni hennar sem dregin eru fram á lifandi og áhrifaríkan hátt. Sigga Stína segir að hún hafi verið „reið lítil stelpa“ eftir að Kári, litli bróðir hennar, fæddist og gefur ekkert eftir í lýsingu á stórkostlega fyndnu og dramatísku barni sem minnir mig helst á systkinin í Addams Family Values þegar þau reyna ítrekað að losa sig við yngsta bróðurinn:

Það liðu ár áður en ég sætti mig við tilveru Kára. Til eru nokkrar myndir frá því hann er tveggja ára og ég fimm. Á einni er litli bjarti, glaði drengurinn að teygja sig í handlegg illskulegrar stóru systur sem víkur sér undan. Um svipað leyti fór mamma með okkur til ljósmyndara sem tók portrettmyndir af okkur. Drengurinn er með ör við augað eftir klór systur sinnar. Systirin er grimm á svip. Ekki nóg með að bróðirinn væri fyrir henni við myndatökuna heldur var hegðun ljósmyndarans langt fyrir neðan hennar virðingu, því hann var með ýlandi gúmmídýr sem áttu að fá hana til að brosa en höfðu þveröfug áhrif. (Bls. 21)

Þetta kallast að hafa húmor fyrir sjálfum sér. Og kunna að koma honum í orð.

Femínismi

Í einhverjum ritdómi um bókina, að mig minnir í Kiljunni, var talað um kafla þar sem höfundur færi á flug í femínískri greiningu, eins og það væri afmarkaður hluti af bókinni. Ef ég man þetta rétt er ég allavega ekki sammála. Femíníska sjónarhornið er alltaf til staðar frá fyrstu blaðsíðu til þeirrar síðustu og það er helsta sérstaða bókarinnar. Sjálfsagt leggst þetta þema misjafnlega í fólk og mér finnst líklegt að þeir sem andsnúnir eru femínisma eigi erfitt með að halda einbeitingu við lesturinn, rétt eins og and-sósíalískir lesendur eiga erfitt með að lesa skáldsöguna Snöruna eftir Jakobínu. Og þó, hver veit.

Einhverjir femínistar gætu að sama skapi gagnrýnt höfundinn fyrir að vera ekki nógu femínísk en ég kann að meta hreinskilnina sem felst í að viðurkenna mótsagnir í eigin skoðunum, til dæmis þegar Sigga Stína talar af fyrirlitningu um „kellingabúðir“ en kallar í næstu efnisgrein eftir því að orðið kerling sé notað í jákvæðari merkingu (bls. 276). Ég hafði gaman af því að lesa Alla mína stelpuspilatíð með kynjagleraugunum sem fylgja bókinni þótt ég væri reyndar ekki sammála höfundinum í öllu. Það skiptir ekki máli, aðalmálið er að svona meðvituð og fyrirferðarmikil femínísk túlkun ævisagnahöfundar á eigin sögu, í ævisögunni sjálfri, er sérstök og hressandi.

Blessuð sértu sveitin mín

Ég viðurkenni fúslega að sá hluti bókarinnar sem fjallar um Mývatnssveit og fólk sem ég kannast við náði betur til mín en aðrir kaflar. Ég hafði afskaplega gaman af því að lesa um sveitunga mína sem margir eru fallnir frá og þær sögur sem Sigga Stína hafði að segja af þeim. Tilfinningin sem kviknaði við lestur þessara kafla var angurvær, líkt og sú sem ég fann þegar ég horfði á heimildarmyndina Hvell síðasta vetur. Það er eitthvað sem gerist þegar maður sér myndir af eða les um heila kynslóð af fólki sem maður þekkti en er að mestu horfin yfir móðuna miklu – ég held að það sé ekki hægt að komast hjá því að verða dálítið meyr.

Frásögn Siggu Stínu er þó ólík öðrum að því leyti að hún skrifar um óþægileg mál sem ekki hefur mikið verið rætt um innan sveitarinnar: einelti í grunnskólanum og geðveilan afa. Kynslóðin sem var fullorðin og á miðjum aldri þegar þessir atburðir gerðust er einmitt sú sem er horfin á braut og það hefur orðið samfélagsleg endurnýjun í Mývatnssveit; nýjar kynslóðir eru komnar til sögunnar, sem og aðflutt fólk sem ekki hefur neina ástæðu til að rjúka upp í vörn þótt minnst sé á erfiða fortíð. Ég sé ekki að sveitungar mínir hafi neina ástæðu til að gagnrýna Siggu Stínu fyrir að fjalla um þessi mál, þvert á móti. Fyrir svo utan það að hún gerir þetta svo ofurgætilega að það liggur við að mann gruni að ekki sé öll sagan sögð. Hún ásakar enga og segist hafa tekið fortíðina í sátt. Eftir situr gagnrýni sem beinist fyrst og fremst að tíðarandanum en ekki persónum. Það er öllum hollt að tala um erfið mál, bæði þau sem tilheyra fortíð og samtíma, og ég er þakklát Siggu Stínu fyrir að skrifa um þessi mál. Vonandi hvetur það fleiri til að gera upp sína fortíð ef þörf er á.

Móðurmissir

Ég býst við að það sé elli- eða þroskamerki þegar maður fer að lesa um samtíma sinn og samferðafólk – jafnvel sjálfan sig – í ævisögum annarra. Það hefur ekki komið fyrir mig áður en kannski verður ekki hjá því komist. Ég varð hissa þegar ég rakst á nafn afa og mömmu minnar í bók Siggu Stínu, sem og mitt eigið, en ég varð líka glöð. Og pínu sorgmædd. Þá erum við komin að snöktinu sem ég minntist á í upphafi þessarar færslu.

Við Sigga Stína eigum nefnilega eitt sameiginlegt, sem ég hafði ekki hugsað út í, þótt ég vissi það auðvitað. Við misstum báðar mæður okkar úr krabbameini í janúar 1994. Hún segir frá því í bókinni að mamma, sem þá var þrjátíuogtveggja ára, og Jakobína hafi legið saman á sjúkrahúsi. Það vissi ég ekki. Ég man lítið eftir Jakobínu en hef kynnst henni fyrst og fremst í gegnum bækurnar hennar og viðtöl sem ég hef lesið. Hún var vissulega amma einnar bestu vinkonu minnar en ég man lítið eftir því að hafa verið í Garði þegar ég var barn.

Sigga Stína minnist ofurfallega á afa þar sem hann tók á móti henni ásamt öðrum sveitungum þegar kista Jakobínu var keyrð heim í kirkju, nýbúinn að missa dóttur sjálfur. Hann hefur væntanlega verið rauðeygður, elsku afi minn, því hann var tilfinninganæmur og gjarn á að tárast. Hún minnist einnig á að Jakobína hafi tekið nærri sér þegar mamma dó tveimur vikum á undan henni frá ungri dóttur (mér). Það vissi ég ekki en mér finnst það pínulítið fallegt, samt á sorglegan hátt. Það var þá kannski þegar upp er staðið einhver tenging milli mín og skáldkonunnar sem ég hef eytt svo miklum tíma í að skrifa um og rannsaka, mér til ómældrar gleði.

Að lokum

Það sem Sigga Stína skrifar um móður sína, persónu hennar, líf og störf í Garði og stöðu hennar sem rithöfundar er mikilvægt innlegg í alla umfjöllun um rithöfundinn Jakobínu Sigurðardóttur héðan í frá. Þar bætast fjölmargir kubbar í það púsluspil sem mynd okkar af skáldkonunni er, til dæmis hvað varðar þrá hennar eftir að fá frið til að skrifa og þá miklu breytingu sem varð á lífi hennar þegar hún varð ástfangin og ákvað að flytja frá Reykjavík og norður í land, svo ekki sé minnst á ótrúlega erfiða sambúð með tengdaföðurnum.

Það er líka eitthvað heillandi við að sjá rithöfund fæðast. Sigga Stína hefur skrifað bækur áður en þá fyrst og fremst sem sagnfræðingur (eftir því sem ég best veit, reyndar hef ég ekki lesið þær). Hér stígur hún fram á eigin forsendum, knúin af „löngun til að vera eitthvað meira en blaut klessa í moldinni“ (bls. 12) – það er að segja, löngun til að skilja eitthvað eftir sig. Skrifa bækur. Og mér skilst á henni að hún sé bara rétt að byrja!